Færsluflokkur: Bloggar

Kærleikurinn er vopn okkar.

Umvafinn kærleika og góðu fólki, það er ég. Ég átti yndislegan dag í vinnunni í dag, það vantar aldrei kærleikan á þeim bænum. Ég sem er heilbrigð hef margt lært af þeim sem ég vinn fyrir á Skáltúnsheimilinu. Þeir sem þar búa kunna að gleðjast yfir hversdagshlutum og gefa af sér kærleika og þakklæti.

Mín reynsla er sú að þegar við leggjum okkur fram við að sína kærleika, styðja aðra og vera þakklát fyrir það sem við eigum, þá fáum við það margfalt til baka.

í dag var ég að vinna og fór því ekki austur í Grímsnesið að heimsækja hann son minn, ég hef heimsótt hann alla sunnudaga undanfarna mánuði og notið þess. Þannig er að ég hef farið af því mig langar til þess og vegna þess að samvera okkar er mér mjög dýrmæt. Mér finnst sem ég sé að finna barnið mitt eftir margra ára útlegð og að ég sé orðin sú móðir sem getur gefið af sér ást án skilyrða.

Ég var sátt við að vera að vinna og af þeim sökum ekki fara austur, bóndin fór og áttu þeir góða stund en mér þótti vænt um það að lesa í kommenti við síðustu færslu að Gyða og hennar maður heimsóttu hann líka og það með tertu í farteskinu. Ég veit að Ragnari hefur þótt ákaflega vænt um þá heimsókn, hann hefur oft talað um hversu einstök þau hjón eru og hve mikla hlýju þau hafa sýnt honum frá fyrstu tíð. Við sem missum börninn okkar í neyslu lærum að sjá mennsku fíkilsins og sýna honum hlýju. Því fíkillinn er jú manneskja rétt eins og við hin. Ég er þakklát fyrir þá hlýju og þann stuðning sem þau hjón hafa sýnt mínum syni og þar er svo sannarlega manngæska á ferð. Gyða mín takk fyrir heiðarleika þinn varðandi andlát vinar þíns, það er alltaf gott að muna að stutt er á milli hláturs og gráturs og því skyldi maður meta lífið og njóta þess á meðan það er.

Að loknum vinnudegi fékk ég óvænta heimsókn frá einni af mínum andlegu systrum. Hún kom með fallegt bros og rauðar rósir,þar mætti ég kærleikanum rétt einu sinni.

Það má segja að þessi dagur hafi verið stútfullur af kærleika og af þeim sökum er ég svo lánsöm að vera stútfull af þakklæti. Móðir Teresa sagði eftirfarandi:

Við þurfum engar sprengjur, engin vopn.

Kærleikurinn er vopn okkar:

kærleikurinn til hinna holdsveiku,

hinna öldruðu, hinna deyjandi, hinna lömuðu;

til allra þeirra sem eiga engan að og engir elska.

Kærleikur er eitthvað sem við búum öll yfir, tökum orð Teresu okkur til fyrirmyndar og leyfum kærleikanum að vera okkar vopn.

Kærleikskveðja. Kristín


Smit eða hvað?

Kraftur í minni þessa dagana.... veit ekki alveg hvað er í gangi nema hvað mín er bara í því að uppgvötva nýjar hliðar á sjálfri sér! Þið munið prjóneríið aha það var algerlega ný hlið sem kom mörgum á óvart...hehehe.... nú tók annað við og trúið mér þeir sem mig þekkja eru eiginlega bara í sjokki. Mín bara alveg gjörsamlega upp úr þurru fékk áhuga á garðinum sínum og er bara að leika moldvörpu þarna úti og reita arfa, planta blómum og kantskera. Ég sem hef alla tíð verið glerhörð á því að garðar ættu að vera hellulegðir með góðum útihúsgögnum svo hægt væri að nota þá til að liggja í leti með kaffibollan að vopni.

Það flaug í gegnum huga minn hvort þetta væri merki um að ég væri að eldast, en nei var nú fljót að finna út að mun líklegra væri að um smit væri að ræða. Ha það er nú þekkt að sprautufíklar beri smit, kannski að minn hafi borðið garðyrkju smit í mömmu sínaGrin 

Heyrði í mínum á fimmtudag og hann sagði mér að undanfarnir dagar hefðu reynt á en það stæði allt til bóta. Ætlaði að heyra aftur í mér í dag þar sem ég kemst ekki á morgun í heimsókn en bóndinn minn fer svo hann fær gest drengurinn.

Í dag dvel ég í þakklæti. Það er svo ótrúlega mikið sem ég hef að þakka fyrir, ég hef verið að líta um öxl og leyfa mér að sjá hversu mikið líf mitt hefur breyst. Trúið mér ég hef eignast nýtt líf og finnst stundum að ég þekki ekki þessa konu í fortíðinni.

Kærleikskveðja. Kristín


Gamli vinur minn óttinn kom í heimsókn.

Stutt í óttann! Ég fann fyrir gamla vini mínum óttanum í gærkveldi.

Þannig er það með okkur aðstandendur að við erum ótrúlega fljót að renna í gömul för. Í gær var miðvikudagur og á miðvikudögum á Ragnar símatíma sem hann hefur alltaf notað til að hringja í mömmuna sína....en kl rúmlega átta var kominn tími á mína að leggja af stað á sinn fasta fund og hann hafði ekkert hringt....mín fór á fundin og sagði bóndanum og börnunum að bera Ragnari kveðju mína.

Þar sem ég keyri á fundinn finn ég hvernig óttinn skríður upp bakið á mér og tekur völdin um stund.....skyldi hann vera farinn úr meðferðinni, úff ég vissi að neyslufélagi hans kom inn á mánudag.

Svona hélt hausinn minn áfram á meðan ég keyrði. Alls konar hugsanir í gangi um það að nú væri barráttan að byrja aftur og að ég þyrfti að búa mig undir það.

Náði að stoppa hausinn á fundinum og vera bara á fundinum innann um mína andlegu fjölskyldu. En viti menn fundi slitið og mín í síman, hringdi í bóndann og sagði án þess að heilsa: hefur Ragnar hringt?????

Nei hann hafði ekkert hringt, illur grunur læddist að mér og hausin fór aftur á stað, gömul sorg gerði vart við sig og tárin heimtuðu að fá að koma í ljós.

Á þessum tímapunkti áttaði ég mig á að ég vissi hvað ég ætti að gera og tók upp síman hringdi í trúnaðarkonuna mína og sagði ég er í óttakasti.... sagði henni söguna og fékk speglunina sem mig vantaði. Hringdu austur og vertu sönn, spurðu hvort ekki sé í lagi, fáðu svar áður en hausinn málar skrattan á vegginn.

Einfalt Smile    sporin eru bara snilld.

Ég fór róleg að sofa og mætti í vinnu í morgun, hringdi svo eftir vinnu og heyrði í starfsmanni. Sagði sannleikan, ég fann fyrir ótta þegar hann sonur minn hringdi ekki,  er í lagi?  Svarið var já það er bara svo mikið að gera hjá honum með aukinni ábyrgð, svo kallaði hún til Ragnars mundu að hringja í mömmu þína, hún er hrædd. Heheheheh

Hann ætlar að hringja í kvöld og ég ætla að vera sönn, segja honum að ég elska hann og að óttinn hafi tekið völdin.

Kærleikskveðja. Kristín


Ánægð með mig!

Allar einkunnir komnar í hús og mín stóð sig vel, bara ánægð með mig Smile Þannig að nú er ég búin með 60 einingar og bara 30 eftir..... vá hvað ég er stolt af mér...híhí.. ég held enn stefnunni sem ég lagði upp með, stefni á að útskrifast með fyrstu einkunn og hef náð að halda henni og ÆTLA að halda henni til streitu Wink

Annars allt gott hér, minn bara á sínum stað og allt að gerast hjá minni. Byrjuð að vinna á mínum gamla vinnustað og hef nóg annað að sýsla umfram það. Fór á kaffihús á áðan og hitti þar frábærar mæður sem búa yfir mikilli reynslu. Það var notaleg stund.

Skellti mér svo í Hafnafjörðin og var við útskrift nemanna í Lækjarskóla þar sem ég var í vettvangsnámi og það var bara gaman að hitta ungmennin aftur og starfsfólkið. Fallegt ungt fólk á ferðinni þar. Skemmtilegast var nú samt að móðir eins ungs manns þar er gömul skólasystir mín úr barnaskóla og ég hef ekki hitt hana í fjölda mörg ár.

Skora á ykkur að lifa og njóta.

Kærleikskveðja. Kristín


Mögnuð helgi.

Vá þessi helgi hefur verið alveg hreint mögnuð vægt til orða tekið!

Við hjónin fórum í foreldraferð sem Foreldrahús bauð upp á og var sú ferð alveg mögnuð. Farið var í tilfinningavinnu með listmeðferðarfræðingi og leikara og mér fannst frábært, alveg til í meira af þessu. Saman var kominn magnaður hópur og innan hópsins var heiðarleiki og traust. Þið úr hópnum sem rambið hér inn. Takk fyrir samveruna og heiðurinn að fá að vera hluti af svo magnaðri heild.

Í dag renndum við austur fyrir fjallið góða og hittum fyrir garðyrkjumanninn okkar LoL okkur til mikillar gleði var garðyrkjumaðurinn orðin leikstjóri og var mjög svo alvarlegur í því hlutverki þegar okkur bar að. Þannig var að þegar við mættum á svæðið var hvergi Ragnar að finna að lokinni leit sagði ungur maður mér að hann væri að gera bíómynd í herbergi þrjú, ég bað hann að sýna mér herbergi þrjú sem og hann gerði en varaði mig jafnframt við að ekki væri sniðugt að trufla leikstjórann þar sem hann tæki hlutverk sitt mjög alvarlega Grin ég fullvissaði unga herrann um að mömmur mættu trufla og bankaði á hurðina og gékk svo galvösk inn, þar átti sér stað taka á mjög svo dramatísku atriði og átti nú mamma verulega bágt með að hlægja ekki hrossahlátri á meðan á tökunni stóð.

Yndislegt að sjá ungt fólk skapa og hvernig sköpunarkrafturinn lyftir upp sálinni hjá þeim. Það voru allir með í kvikmyndinni ýmist sem leikarar eða leikstjórar og kvikmyndatökumenn. Auðvitað fékk mamman forsýningu og ég grét af hlátri allan tíma, þó myndin ætti að flokkast undir dramatíska spennumynd. Þau voru bara svo yndislega einbeitt í leik sínum. Allir leikarar fá óskarinn frá mér fyrir hlutverk sitt og leikstjórar og handritshöfundar líka. Myndin fær tíu stjörnur af fimm mögulegum.

Kanski er ég heldur hlutdræg í dómi mínum á kvikmyndinni en mér er alveg sama Whistling 

Nú Ragnar minn hristist eitthvað í skjálftanum um daginn en ekki varð neitt tjón hjá þeim og allir heilir að húfi. Ein falleg dama sem ég þekki útskrifaðist þennan dag, það má segja að hún hafi gert það með stæl..... enda gullmoli sem er kominn úr klóm fíknar í frelsi lífsins og ég ætla að trúa því að þessi skjálfti á útskriftardaginn hennar hafi verið merki um kraftinn sem í henni býr til edrúmennsku.

Á morgun ætla ég að afla mér fræðslu um þetta nýja meðferðardæmi MST, ég verð að játa að ég er vantrúuð á að þetta form virki en einmitt þess vegna verð ég að fræðast svo ég sé ekki að dæma án vitneskju Wink 

Lifið heil...

Kærleikskveðja.Kristín


Þungt yfir mínum.

Nú er þungt í mínum manni! Ég varð vör við það á sunnudaginn og aftur nú þegar hann hringdi, veit ekki hvað er að trufla hann og hann veit það ekki sjálfur að eigin sögn. Áttum langt og gott samtal og hann er meðvitaður um að eitthvað er að trufla hann, veit bara ekki hvað. Segir hausinn fullan af paranoju og ranghugmyndum, er líka að drepast úr tannpínu og sefur illa.´

Mín búin að hafa ónota tilfinningu vegna þessa en er samt ekki búin að gleyma að hann er í guðs höndum og ég trúi því að þetta sé tímabil sem hann kemst yfir. Skrefið aftur og svo áfram á ný.

Farinn á fund Smile

Kærleikskveðja.Kristín


Fallegt ungt fólk.

Fór að heimsækja garðyrkjumanninn minn í Grímsnesinu í dag, það var yndislegt veður og bros á hverjum manni....getur ekki verið betra. Strákarnir voru stelpulausir á svæðinu þegar mig bar að stúlkurnar voru í ferðalagi. Þeir voru alsælir með kvennlausa helgi, þar sem þeir grilluðu og nutu þess að vera til en ósköp sem þeir voru nú samt glaðir þegar kvennfólkið mætti á svæðið Smile

Eitt af því sem er svo mikilfenglegt er að fá að vera þess aðnjótandi að sjá þetta fallega fólk í Grímsnesinu vaxa og blómstra, ég sem hef verið svo lánsöm að fara í heimsóknir nú á hverjum sunnudegi í þetta langan tíma verð eins og ástsjúk skólastelpa skelf í hnjánum af gleði við að sjá krakkana aftur og aftur, fallegri og fallegri.

Kærleikskveðja.Kristín


Móðir og fíkill...

Fréttir undanfarinna daga hafa verið fullar af fréttum af fíklum sem deyja ótímabærum dauða og þessir fíklar eiga börn, sistkyn, mæður, feður, frænkur, frændur, ömmur og afa. Ég þekki nokkuð margar mæður sem eiga börn í neyslu, ég þekki nokkur börn sem eiga foreldra sem eru fíklar, ég þekki ömmur og afa sem horfa á eftir barnabörnunum í neyslu, sjálf á son sem er fíkill og sistkyni. Ég er einstaklega lánsöm sonur minn er á öruggum stað í dag, edrú og hjá fólki sem veitir honum styrk og leiðsögn en ég þekki vel hvernig það er þegar fíkillin minn er í neyslu á götunni og öll sú sorg sem því fylgir, allur sá ótti sem því fylgir og allt vonleysið.

Ég veit hversu erfitt það er að sjá barnið sitt stefna lífi sínu í glötun, hversu erfitt það er að mæta fólki sem ekki sér neitt manneskjulegt við fíklana á götunni, hversu veik vonin er um að hann hætti, óttinn við að hann deyji, hugsanir um að ef hann myndi deyja þá væri þetta loksins búið og ég gæti farið að syrgja í síðasta sinn en ekki aftur og aftur við hvert það högg sem kom. Ég hef gjarnan líst því að vera móðir fíkils er eins og að vera í rússneskri rúllettu alla daga, þú veist aldrei hvenær þú færð kúluna í hausin.

Ég vildi stundum að ég væri svo máttug að ég gæti leyft þeim sem stjórna þessu velferðarkerfi að finna tilfinningarnar sem ég hef fundið sem móðir, tilfinningarnar sem sonur minn hefur fundið sem fíkill. Ég hef aðeins fengið að upplifa hans tilfinningar í gegnum hann og trúið mér fíklum líður ekki vel. Nei fyrst er partýið en bara um stund....svo fer að síga á og þeir lifa í helvíti alla daga....næsti skammtur nær ekki partýinu né að deyfa vondu tilfinningarnar.

En þannig er því farið með aðstandendan og fíkillinn að við leitum okkur oft ekki hjálpar fyrr en vanlíðaninn er orðin svo mikil að ekkert skiptir máli lengur..... Þegar ég á sínum tíma fór að sinna mér þá var ég uppgefinn og fannst lífið einskins virði, sá engan tilgang með því heldur aðeins sársauka og kvöl. Þegar Ragnar minn fór í meðferð síðast átti hann ekkert eftir, hvorki líkamlega né andlega og það í raun varð til þess að hann er enn og gengur vel, því kraftleysi hans kom í veg fyrir að hann færi út að sprauta sig. Hann segir sjálfur ég átti ekkert eftir nema dauðasprautuna og var farinn að þrá hana.

Ég er í dag svo þakklát, þakklát fyrir að hafa lifað þessu lífi og fengið að þiggja þá hjálp sem mér sem aðstandenda stendur til boða. Það hefur kennt mér að sleppa tökunum á fíklinum og leyfa honum að vinna sína vinnu. Ég hef lært að gera það á kærleiksríkan hátt. Það þakka ég mörgu góðu fólki, ráðgjöfum, Foreldrahúsi og 12.sporum Alanon.

Þetta er veruleikinn..... já veruleiki okkar sem elskum fíkla og sjáum enn mennsku þeirra.

Kærleikskveðja. Kristín


Dauðans alvara... það er nefnilega það!

Ein spurning....Hvað eru margir fíklar dánir á árinu sem ekki eru foreldrar? Hvaða tölu ætli við fáum yfir heildarfjölda látinna fíkla?

Ok... þetta voru tvær spurningar en ég veit að Foreldrar fíkla vilja svör við þessum spurningum!

Kærleikskveðja.Kristín


mbl.is Um 20 fíklar látist frá börnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kartöflubændur, blóm og lömun.

Jæja þá er mál að tala um jákvæða og fallega hluti eftir pirring undanfarinna daga! Pirring út í samfélag sem þaggar fíkniefnavandan í hel....en ég hef lúmskan grun um það eigi nú eitthvað eftir að breytast með haustinu Smile 

Fór síðasta sunnudag að heimsækja Ragnar austur og það var bara magnað. minn og fleirri búnir að vera svo öflugir. Kominn kartöflugarður við húsið hans, lítil sæt sumarblóm og búið að helluleggja fyrir framan hús. Vá það var magnað að upplifa son minn gera svona heilbrigða hluti og en magnaðra að sjá stoltið í augum hans vegna afrakstursins. Yndislegt mín var stolt í hjartanu og klökk af gleði.... frekar væminn en það er gott.

Það er svo flottur hópur þarna fyrir austan og yndislegt að sjá hvað staðurinn er opinn og tilbúin að styðja þetta unga fólk til heilbrigðra hluta.

Nú eftir heimsóknina....stoppaði frekar stutt...þá brenndi ég með bóndan minn á bráðavaktina! Skyndilega var eins og hálft andlitið á honum ætlaði að leka niðrá hné og hann var ekki sérstaklega myndarlegur öðru meginn!

Þar máttum við byrja á að bíða í tvö tíma eftir að komast inn, þá tóku við fimm tímar í skoðun. í ljós kom að minn maður er með Belgs lömun.....sem er ekki bráðalvarleg en er andlitslömun og er því hálft andlitið lamað og getur verið það um nokkurt skeið. Lömuninn gengur til baka í flestum tilfellum en það getur tekið einhverja mánuði. Fjúkket....var smeik um tíma að þetta gæti verið heilablóðfall!

Svona eru ævintýrin í mínu lífi...ég get sjaldnast kvartað yfir lognmollu og leiðindum Grin 

Kærleikskveðja.´Kristín


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband