Heilbrigðismál Einn af hverjum tíu sem lagðir eru inn á gjörgæsludeild Landspítalans í Fossvogi kemur þangað vegna afleiðinga vímuástands. Þóroddur Ingvarsson læknir, sem rannsakað hefur þessi mál, segir hlutdeild sprautufíkla hafa aukist mjög mikið meðal þessa hóps frá árinu 2003 og 2007.
Hann segir að á síðasta ári hafi 38 prósent þeirra sem voru lagðir inn vegna sprautufíknar látið lífið, eða alls sex manns, en enginn þeirra sprautufíkla sem lágu á gjörgæslu árið 2003 lést. "Þetta var allt ungt fólk og sárt að horfa á það fara svona," segir Þóroddur og ítrekar að tölurnar eigi aðeins við um þá sem létust á gjörgæsludeild.
Þá bendir hann á að dánartíðni þeirra sem leggjast inn á gjörgæslu sé 5,8 prósent en meðal sprautufíkla sé hlutfallið þrettán prósent á þessu fimm ára tímabili, jafnvel þótt meðalaldur fíklanna sé töluvert lægri en annarra sem þar eru lagðir inn.
Álag vegna meðhöndlunar sprautufíkla hefur aukist mjög á starfsfólk smitsjúkdómadeildar Landspítalans. Að sögn Magnúsar Gottfreðssonar, yfirlæknis smitsjúkdómadeildar, hafa alvarlegar en sjaldgæfar blóðsýkingar meðal sjúklinga mjög færst í vöxt. Fíkniefnaneysla eykur mjög hættu á slíkum sýkingum.
"Þetta eru lífshættulegar sýkingar og dánartíðnin fimmtán til þrjátíu prósent. Samt sjáum við í rauninni bara toppinn á ísjakanum. Það er mjög átakanlegt að horfa upp á þetta fólk sem ætti að eiga framtíðina fyrir sér láta lífið eða glíma við króníska sjúkdóma af völdum fíkniefnaneyslu," segir Magnús. - kdk
Sonur minn er einn af þessum sprautufíklum, hann er einn af þessum sex sem ekki deyja við komu á gjörgæslu vegna neyslu. Hann hefur sloppið fram að þessu við dauðan en ef hann fellur og fer aftur í neyslu er ekki víst að hann sleppi.
Málið er að ég held að samfélagið sé ekki nógu meðvitað um hversu alvarlegur vandi þetta er, fíkniefnavandinn og hversu dýrt það er fyrir samfélagið að hafa virka fíkla á götunni. Ég tel af hinu góða að þessi frrétt sé birt en er líka á sama máli og læknirinn þetta er eingöngu smá brot sem þeir fá inn. Hvað ætli mörg dauðsföll af neyslu séu skráð og hvar eru þessar tölur. Er ekki tímabært að krefja þá sem stýra þessu til að horfast í augu við þennan vanda og leggja til fjármuni í meðferðarstarf sem nýtist til að byggja upp þessa einstaklinga og fjölskyldur þeirra!
Samkvæmt frétt á ruv í síðustu viku er verið að loka meðferðarheimilum fyrir unglinga vegna þess að ekki er ásókn í þau.....afsakið en af hverju þekki ég fullt af ungum fíklum á götunni og hvers vegna verð ég vör við fjölgun ungra barna í neyslu......ég hef ekki séð hópin minnka, aðeins harðari neysla og yngri einstaklingar. Jú vissulega eru afföll því fíklarnir okkar deyja ungir og deyja hratt.
Móðir fíkils frekar gröm út í þetta svokallaða velferðakerfi okkar...arg og garg...
Kærleikskveðja. Kristín