Þungt yfir mínum.

Nú er þungt í mínum manni! Ég varð vör við það á sunnudaginn og aftur nú þegar hann hringdi, veit ekki hvað er að trufla hann og hann veit það ekki sjálfur að eigin sögn. Áttum langt og gott samtal og hann er meðvitaður um að eitthvað er að trufla hann, veit bara ekki hvað. Segir hausinn fullan af paranoju og ranghugmyndum, er líka að drepast úr tannpínu og sefur illa.´

Mín búin að hafa ónota tilfinningu vegna þessa en er samt ekki búin að gleyma að hann er í guðs höndum og ég trúi því að þetta sé tímabil sem hann kemst yfir. Skrefið aftur og svo áfram á ný.

Farinn á fund Smile

Kærleikskveðja.Kristín


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þegar fíkill sem hefur verið á sterkum efnum verður edrú,kemur þunglyndi yfir flesta frá ca 4 mánuði edrúmennskunnar.Stundum dugar að vera meðvitaður um það,en stundum þarf lyf og viðtöl.Góður meðferðaraðili er meðvitaður um þetta og stígur inní aðstæðurnar.Svo eru auðvitað ekki allir sem verða þunglyndir en flestir finna fyrir þessu.Yfirleitt er þetta tímabundið en flestir þurfa aðstoð við að komast yfir þennan hjall.Gangi ykkur vel

Birna Dis Vilbertsdóttir (IP-tala skráð) 28.5.2008 kl. 20:15

2 identicon

Hæ Stína mín, við mæðgur eigum erfiðan dag fyrir höndum á morgun (get ekki sofnað),  ég fer með henni í Grímsnesið seinnipartinn og skal knúsa FLOTTA bóndann fyrir þig Sendu okkur mæðgum góða strauma. Knús

Elísabet Markúsdóttir (IP-tala skráð) 29.5.2008 kl. 00:52

3 Smámynd: Berglind Nanna Ólínudóttir

Sæl Kristín, og þakka þér innilega fyrir hreinskilnina og heiðarleikann á þessari síðu. Búin að sitja núna í góða tvo tíma og lesa allar færslur frá upphafi og fram á þessa, og æði margar athugasemdirnar. Merkilegt þetta líf, í maníukastinu mínu gat ég ekki sofið, og fór því óvenjusnemma á bloggrúntinn, og fór að lesa allskyns blogg sem ég hafði aldrei gefið mér tíma til að skoða áður. Búin að tárast, hlægja, hrista hausinn, og kinka kolli oftar en ég hef tölu á meðan á lestrinum stóð. Og hvað er þetta með þig og þitt líf og afmælisdagana á mínu heimili????? Var eitthvað að gerast hjá þér 5. apríl s.l.?  Ég spyr vegna þess að frumburðurinn minn á afmæli 18. mars, þá áttir þú að skila einhverju verkefni, var það ekki? Ég á afmæli 8. maí, þá varstu að skila ritgerð ef mig misminnir ekki, og svo á örverpið mitt afmæli 5. apríl! Jahérna hér! Mikið og margt búið að poppa upp í kollinum á mér, og oft langaði mig til að skrifa athugasemd við einhverja færsluna, en gat það ekki þar sem löngu er búið að loka á þær! Arg og garg, því nú man ég ekki bofs af því sem mig langaði að segja! Svipað og á AA-fundi. Þar eru alltaf 3 útgáfur af því sem ég segi: Sú fyrsta er þessi sem ég er búin að ákveða í hausnum áður en ég fæ orðið, önnur er sú sem ég læt flakka í pontunni, og sú þriðja er sú sem rennur í gegnum hausinn á mér þegar ég er að setjast aftur!

Eitt er víst, vandinn sem steðjar að börnunum okkar er mikill og stór, og langt frá því einfalt að leysa hann. Kvittaði hjá Betu áðan, og sagði þar að ég væri búin að vera beggja megin borðs í þessum málum.  Ég missti eldri bróður minn í hendurnar á fíkninni, stór lexía, en hún hefur dugað mér síðan, því í hvert sinn sem harðnað hefur á dalnum hjá mér, og mig fer að langa í breytt ástand, hefur mér nægt að hugsa til hans, og þá hef ég lausnina í hendi mér. Ég tók þá ákvörðun á sínum tíma að hafa hlutina einfalda, þar sem ég er flækjufætla af Guðs náð! Nú er það mitt á hverjum morgni að velja að lifa eða að deyja. Ef ég ætla að lifa, þá er ég edrú og sinni edrúmennskunni. Ef ég ætla að deyja sleppi ég takinu á öllu því góða sem ég á og sem ég hef fengið. Einfalt, ekki satt? Ekki alveg svona einfalt í framkvæmd, sér í lagi fyrst um sinn, en það hefur dugað mér í 16 ár.

Ég á líka ofsalega yndislegan frænda sem er hjá Mumma (held ég ennþá), og við fjölskyldan búin að líða vítiskvalir vitandi af honum í einhverjum grenjum að sprauta sig með conta. En það horfir allt til batnaðar, amk síðast þegar ég vissi fyrir 3 dögum. Guði sé lof fyrir það.

Og það er alveg rétt sem þú skrifar um kærleikann, og að lifa einn dag í einu, í núinu. Veit ekki hvernig ég hefði komist í gegnum mínar hremmingar öðruvísi.  Mig langaði líka að segja þér, af því þú sagðir á einum stað að þú værir þakklát fyrir erfiðleikana og áföllin því þau gerðu þig að þeirri manneskju sem þú ert í dag, að mér var sagt einhverntímann að sorgirnar og erfiðleikana fengjum við til að hola hjartað okkar, svo það gæti rúmað meiri gleði og kærleika!  Kærar þakkir fyrir mig, ætla að koma reglulega og fylgjast með.

Knús á þig og þína inn í daginn, og segðu Ragnari að ég bæti honum í bænirnar mínar, og hann sé flottur!  Kærar kveðjur.

Berglind Nanna Ólínudóttir, 29.5.2008 kl. 09:56

4 identicon

Hæ Stína mín, ég knúsaði bóndann fyrir þig í dag, hann var bara nokkuð brattur, sat í garðinum með öllum hinum og beið eftir kvöldmatnum sem var grillaður úti enda ekki leifilegt að fara inn í húsið eftir skjálftann. Allt í góðum gír þegar ég fór um hálf sjö. Knús

Elísabet Markúsdóttir (IP-tala skráð) 29.5.2008 kl. 23:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband